154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er bara ekkert að rugla þessu saman, alls ekki neitt. Ég er alveg sammála því sem ráðherra byrjaði á. Já, lögreglan þarf þær heimildir. En nei, þetta frumvarp gefur ekki bara þær heimildir heldur miklu, miklu meira. Svo er það skilgreining ráðherra á forvirkum rannsóknarheimildum. Dæmið sem hæstv. ráðherra tók; lögreglan stendur á götuhornum og er að fylgjast með umferð sem fer fram hjá, það er í fína lagi. Um leið og þú tekur upp myndavél og ferð að myndgreina og telja hvaða persónur það eru sem eru að keyra einhverja ákveðna leið til þess að leita í rauninni að glæp þá ertu kominn með ákveðna rannsóknarheimild. Þú ert að líta til einstaklinga sem eru í rauninni alsaklausir. Þú ert að ganga á þeirra friðhelgi í þeirri von að finna einhvern glæp. Það er forvirk rannsóknarheimild. Áður en grunur er um glæp, áður en glæpur er framinn, er ég að rannsaka eitthvað í þeirri von að finna eitthvað sem gæti verið bitastætt og hægt að gera mál úr. Skilgreiningin á því getur ekki verið annað en forvirk rannsóknarheimild, sama hvað ráðherrann hristir hausinn. Þannig virkar það einfaldlega. Þegar lögreglan er ekki með neitt í höndunum, eins og ráðherra kynnti frumvarpið hérna, án þess að um grun sé að ræða er lögreglan samt með smásjána að reyna að finna einhvern glæp. Heimild til að nota smásjána án gruns er forvirk rannsóknarheimild.